Aðvörun um málshöfðun

DV ehf.
Kringlunni 4-6
103 Reykjavík

Kristinn H. Guðnason
Laufvangi 9
220 Hafnarfirði

Reykjavík, 26. september 2017.

Efni: Krafa um afsökunarbeiðni og greiðslu miskabóta – Aðvörun um málshöfðun.

Til mín hafa leitað Christopher Bjørnsen, persónulega og f.h. félagsins NORSKK VIKINGAR CORP., sem skráð er í Kanada, Corporation number 901469-1 (kanadísk kennitala félagsins) en félagið er í eigu bandaríska móðurfélagsins NORSKK CORP., skráð í Delware fylki, Corporation number 5.620.509., og falið mér að gæta hagsmuna sinna vegna ærumeiðandi ummæla sem birtust í grein eftir Kristinn H. Guðnason, þann 22. september s.l., á vefsíðu DV, dv.is, og bar fyrirsögnina: „Fjárplógsstarfsemi og áróður á víkingasíðu.“

Í greininni er að finna margvíslegar órökstuddar aðdróttanir og ærumeiðingar í garð umbj. minna. Sem dæmi um slík ummæli í greininni má t.d. benda á fyrirsögn greinarinnar þar sem því er slegið föstu að um „fjárplógsstarfsemi“ sé að ræða. Þá segir einnig í greininni orðrétt:

“Ekki eru til neinar vísbendingar um að raunveruleg starfsemi sé á bak við þessi fyrirtæki, ef undan er skilin hin erótíska myndasíða. Christopher Fragassi-Bjørnsen notar þetta net gervifyrirtækja til að hafa fé af fólki og samtímis breiða út boðskap sinn um skaðsemi innflytjenda og femínista. Fyrirtækin eru flest frekar lítið þekkt og fáir sem falla fyrir svikunum. Íslendingar eru þó sannarlega skotmark hins kanadíska svikahrapps.“

Þarna eru umbj. mínir opinberlega sakaðir um fjársvik og tilraun til fjársvika, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga, en um er að ræða mjög alvarleg afbrot sem liggur allt að 6 ára fangelsi við. 

Einnig er að finna fjölmörg önnur ummæli í framangreindri grein sem teljast ærumeiðandi og brjóta í bága við lög auk þess sem önnur ummæli í greininni eru í besta falli ósmekkleg. Umbj. mínir telja þó að framangreind tilvitnuð ummæli séu þau alvarlegustu í greininni og hafa því ákveðið að láta við það sitja að byggja kröfur sínar um ómerkingu ummæla, refsingu og skaðabætur, á þessum ummælum sem og fyrirsögn greinarinnar.

Umbj. minn og fyrirtæki hans hafa með höndum umfangsmikla og lögmæta starfsemi þar sem seldar eru vörur og þjónusta og hafa gert um árabil. Hefði blaðamanninum nægt að leita á internetinu í skamma stund til að komast að þeirri niðurstöðu. Umbj. minn selur vörur og þjónustu m.a. í gegnum etsy.com ofl. síður og er þar að finna fjölda ummæla (e. ratings) og má sjá að umbj. minn fær t.d. á eingöngu 5 stjörnur á etsy.com. Á youtube.com er einnig að finna mikið af efni frá umbj. mínum þ.á.m. fjölda myndbanda af námskeiðum ofl., þar sem sjá má hvað felst í þeirri þjónustu sem umbj. minn veitir. Þá er augljóst að starfsemin er raunveruleg þegar litið er yfir heimasíðu og facebook síðu fyrirtækisins, en þar er að finna gríðarlegt magn af myndum, myndböndum og öðrum sönnunargögnum um starfsemina. Þar má einnig lesa fjöldan allan af athugasemdum ánægðra viðskiptavina fyrirtækisins. 

Framangreindu til viðbótar liggur fyrir að umbj. minn, Christopher, er með hreina sakaskrá og hefur aldrei verið ákærður eða áskaður um nokkurs konar svikastarfsemi fyrr en að DV ehf. ákvað að birta framangreinda níðgrein með hinum alvarlegu ásökunum sem enginn fótur er fyrir. Þá skal í þessu sambandi einnig bent á að umbj. minn og fyrirtæki hans hafa skilað skattaskýrslum í Kanada, Bandaríkjunum sem og öðrum löndum þar sem fyrirtækin hafa haft starfsemi. Þannig hefur í öllum tilvikum verið greiddur skattur af tekjum félagsins í samræmi við lög í hverju landi. Þá er NORSKK skráð vörumerki bæði í Bandaríkjunum og Kanada.

Umbj. mínir benda að sama skapi á það að Kristinn og DV ehf. hafa ekki sýnt fram á það með nokkrum hætti að framangreindar ásakanir um fjársvik og blekkingar eigi við rök að styðjast. Fyrir þessum fullyrðingum bera umræddir aðilar að sjálfsögðu sönnunarbyrðina. 

Er því ljóst að hér hefur bæði Kristinn persónulega og DV ehf. gerst brotlegir við 235. gr., 236. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Með vísan til ofangreinds gera umbj. mínir eftirfarandi kröfur á hendur DV ehf. og Kristni, persónulega, in solidum.

  1. Að birt verði afsökunarbeiðni í prentaðri útgáfu DV sem og á dv.is þar sem ummælin verði dregin til baka, og viðurkennt að þau hafi verið röng.
  2. Að framangreind frétt verði annaðhvort fjarlægð af vefnum eða að henni verði breytt með þeim hætti að öll ærumeiðandi ummæli í garð umbj. minna verði fjarlægð úr fréttinni. 
  3. Að umbj. mínum verði greiddar skaðabætur að fjárhæð kr. 900.000 auk lögmannskostnaðar að fjárhæð kr. 200.000 m. vsk., sem skal greiðast inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu undirritaðs nr. 0301-26-008227, kt. 590913-0650.

Veittur er frestur til 10. október n.k. til að verða við kröfum umbj. minna en að öðrum kosti má búast við því að mál verði höfðað á hendur ofangreindum aðilum.

Virðingarfyllst,

Jóhannes S. Ólafsson hdl.